
Borgarstjórn samþykkti breytta svæðisskipulagstillöguJákvæð umsögn um deiliskipulagið
Borgarstjórn samþykkti í dag breytingar á tillögu að svæðisskipulagi fyrir byggingarsvæði númer 5 vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar við Landspítalann. Í tillögunni er gert ráð fyrir tveimur breytingum. Annars vegar er hætt við Holtsgöng sem tengja áttu Sæbraut við Hringbraut. Hins vegar er gert ráð fyrir meira byggingamagni en áður á svonefndu byggingarsvæði 5, í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu við Landspítalann.
Skipulagsráð hafði samþykkt breytta svæðisskipulagstillögu þann 7. nóvember og meirihluti borgarráðs samþykkti hana fyrir helgi.
Í umsögn svæðisskipulagsnefndar um áhrif af niðurfellingu Holtsganga segir að þau hafi ekki mikla svæðisskipulagslega þýðingu í stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins. Göngin hafa ekki verið á áætlun Vegagerðarinnar um stofnbrautarframkvæmdir og gerir hún ekki athugasemdir við áformin í umsögn sinni.
Ekki talið hafa óæskileg áhrif á umferð
Ekki er talið að niðurfelling Holtsganga muni hafa áhrif til umferðaraukningar á einstökum götum í Þingholtum og Skólavörðuholti.
Í umsögn fagráðs svæðisskipulagsnefndar segir að það sé álit fagráðs að talsvert hafi skort á að raunhæfni Holtsganga hafi verið metin til fullnustu á sínum tíma og að allt bendi nú til þess að gagnsemi þeirra sé lítil og í engu samhengi við tilkostnaðinn. Ráðið telur það því vera eðlilegt skref að fella þau út úr svæðis- og aðalskipulagi.
Fagráðið telur einnig að aukning byggingarmagns á svæði númer 5 muni ekki hafa óæskileg áhrif á umferð á stofnbrautakerfinu.