Grensásdeild er endurhæfingardeild Landspítala, en þangað koma sjúklingar til endurhæfingar eftir að hafa lokið meðferð á öðrum deildum spítalans. Algengast er að sjúklingar komi í sérhæfða sjúkra- og iðjuþjálfun, talþjálfun eða viðtöl og meðferðir hjá fjölmörgum sérfræðingum endurhæfingardeildarinnar.
Núverandi húsnæði Grensásdeildar er komið til ára sinna og styður ekki við nýjustu þekkingu og þróun hjálpartækja og búnaðar í endurhæfingu mænuskaðaðra og mikið slasaðra einstaklinga. Byggja á um 4.400m2 nýbyggingu sérsniðna fyrir þjálfunarstarfsemi Grensásdeildar og nýja legudeild, en einnig verður þar nýr matsalur og ýmis önnur samverurými ásamt tilheyrandi stoðrýmum.