mynd af skylti með upplysingum um hvernig maður kemst a staði

Búið að afgreiða frumvarp úr fjárlaganefnd

Frumvarp um að ríkið fjármagni byggingu nýs Landspítala við Hringbraut var afgreitt úr fjárlaganefnd í gær. Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar Alþingis, er bjartsýnn á að frumvarpið verði samþykkt fyrir þinglok.

„Mér finnst hafa tekist vel að fjalla um frumvarpið í nefndinni, þar er breið samstaða um málið að undanskildum Framsóknarflokknum. Það virðist vera fullur vilji til að opna á þessa nýju leið til að halda málinu gangandi.“

Hann segist ekki eiga von á að málið þurfi að fara aftur til umfjöllunar í nefnd á milli annarrar og þriðju umræðu í þinginu. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir við frumvarpið aðrar en þær breytingar sem nefndin leggi til en þær séu smávægilegar. Verði frumvarpið að lögum verði hægt að fara í forval um leið og það hefur verið samþykkt.

Telja hagstæðara að bygging spítalans verði opinber framkvæmd
Í frumvarpinu sem fjárlaganefnd fjallaði um eru lagðar til breytingar á lögum frá 2010 en samkvæmt þeim átti að undirbúa byggingu nýs húsnæðis Landspítala þannig að einkaaðilar byggðu húsnæðið og ríkið tæki það á langtímaleigu. Samkvæmt nýja frumvarpinu er horfið frá þeirri leið og byggingu spítalans breytt í hefðbundna opinbera ríkisframkvæmd.

Í áliti fjárlaganefndar segir að ljóst sé að almennt séu breytingarnar sem boðaðar eru í frumvarpinu til bóta. Til dæmis hafi verið nær einróma álit gesta nefndarinnar að hagstæðara væri að um opinbera framkvæmd væri að ræða frekar en að ríkið færi svokallaða leiguleið.
„Rökin fyrir breytingunum eru af ýmsum toga. Fram hefur komið að íslenskir verktakar hafa tæplega fjárhagslega burði til þess að standa undir áhættunni sem fylgir því að bjóða í verkefni af þessari stærðargráðu. Gjaldeyrishöftin gera það síðan að verkum að alls óvíst er með áhuga og þátttöku erlendra verktaka. Yfirstjórn spítalans telur hagkvæmast og best að sem mest af verkefnum tengdum viðhaldi og rekstri fasteigna sé sinnt af spítalanum sjálfum en ekki utanaðkomandi aðilum,“ segir í álitinu.

Tvær breytingartillögur frá nefndinni
Gerðar voru tvær tillögur að breytingum á frumvarpinu í umfjöllun nefndarinnar. Samkvæmt núgildandi lögum um nýjan Landspítala er ákvæði um að Alþingi þurfi að taka ákvörðun um útgjöld til verkefnisins í kjölfar útboðs, í nýja frumvarpinu var búið að taka þá setningu út en fjárlaganefnd leggur til að henni verði aftur bætt inn. Hin breytingin er orðalagsbreyting í ákvæði um að ráðherra sé heimilt að ákveða að tilteknir minni hlutar verkefnisins verði boðnir út samkvæmt leiguleið, þ.e. að einkaaðilar byggi húsnæðið og ríkið taki það á langtímaleigu.

Fulltrúar allra flokka nema Framsóknarflokks samþykkir
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði með áliti nefndarinnar en Sjálfstæðismenn í nefndinni skrifuðu undir með fyrirvara. Fulltrúi Framsóknarflokksins lagðist gegn afgreiðslu frumvarpsins.

Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins, velferðarráðuneytisins, Landspítalans, Háskóla Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Landssamtökum lífeyrissjóða og Framkvæmdasýslu ríksins.

Álit fjárlaganefndar