mynd af folki i kringum spitala

Eitt af stóru verkefnunum

EItt af stóru verkefnunum sem Íslendingar standa frammi fyrir er bygging nýs Landspítala við Hringbraut, að því er fram kom í máli Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra í umræðum um fjárlagafrumvarp ársins 2013 á Alþingi.

Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, spurði velferðarráðherra hver væru næstu skref í málefnum nýs spítala og kvaðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með að nokkrar tafir hefðu orðið á verkinu. „Nýr Landspítali þýðir ekki aðeins betri aðstöðu og þjónustu við sjúklinga heldur líka við aðstandendur þeirra, við starfsmenn sjúkrahússins og alla þá nemendur sem eru þar á hverjum degi. Landspítalinn er jú ein stærsta menntastofnun þjóðarinnar,” sagði Álfheiður.

Guðbjartur tók undir að nýr Landspítali væri eitt af þeim stóru verkefnum sem fyrir liggja. Útreikningar sýndu að hagræðingin við að færa starfsemina í nýja byggingu á einn stað myndi spara á bilinu 2,7 til 2,8 milljarða króna, sem ætti að duga fyrir fjárfestingunni.

„Staðan er þannig að þetta er að klárast í skipulagsmálum. Það er verið að vinna að málum og skoða og það þarf að koma með það fyrir þingið að fara jafnvel með þetta sem ríkisframkvæmd,” sagði Guðbjartur. Áfram væri unnið af krafti að málinu, en tryggja yrði að það væri með stuðningi Alþingis og í sátt við Reykjavíkurborg.

„Ég er sannfærður um að þetta sé skynsamleg framkvæmd, einmitt út frá því sem hér var sagt, vegna bættrar þjónustu, vegna þess að við þurfum bætta aðstöðu fyrir fagfólkið okkar, fyrir starfsfólkið, og ekki síst fyrir sjúklingana,” sagði Guðbjartur í þingumræðunum.