folk ad labba i att ad spitalanum

Framtíðarskipulag Landspítala Íslands við Hringbraut

Tillaga að framtíðarskipulagi Landspítala Íslands við Hringbraut hefur verið í almennri kynningu síðastliðinn mánuð. Skipulagsdrögin hafa verið til sýnis í anddyri Ráðhússins og í þjónustuverinu á Höfðatorgi en einnig er hægt að skoða kynningargögnin á www.reykjavik.is. Tekið var á móti ábendingum og athugasemdum vegna skipulagsins til 1. september og nú er verið að flokka og fara yfir þau bréf sem bárust.

Þessi forkynning er í anda hinna nýju skipulagslaga sem gengu í gildi um síðustu áramót og leggja áherslu á meiri þátttöku íbúa og góða kynningu á skipulagsmálum. Tilgangurinn er að upplýsa um framkvæmdaáform og gefa fólki kost á að kynna sér þau vel, ná fram uppbyggilegri umræðu

í samfélaginu um skipulagsmál og betri sátt um fyrirhugaða uppbyggingu í borginni.

Nýjung í kynningu fyrir almenning

Þetta er í fyrsta skipti sem skipulagsverkefni í Reykjavík er kynnt fyrir almenningi á meðan það er ennþá í vinnslu og með þessu er boðið upp á tækifæri til að hafa meiri áhrif á endanlega lausn en tíðkast hefur. Þegar skipulagsvinnunni lýkur og Skipulagsráð hefur samþykkt endanlega útfærslu deiliskipulagsins fer það síðan í hið lögboðna kynningarferli þar sem það verður aftur kynnt og tekið á móti athugasemdum. Eftir úrvinnslu þeirra og hugsanlegrar breytingar er skipulagið síðan endanlega samþykkt.

Á síðasta ári var haldin samkeppni um skipulag spítalasvæðisins við Hringbraut og hlaut Spítal hönnunarhópurinn fyrstu verðlaun. Einkenni tillögunnar og jafnframt styrkur er að hún myndar hefðbundna borgarmynd með götum og torgum. Lausnin býður upp á góða landnýtingu og byggðamynstur sem er í anda þess sem fyrirhugað er í Vatnsmýrinni. Spítal hópurinn hefur í kjölfar samkeppninnar útfært samkeppnistillögu sína yfir í deiliskipulagsdrög.

Uppbygging af þessu tagi varðar alla þjóðina og er ekki síður heilbrigðismál en skipulagsmál. Drifkrafturinn á bak við framkvæmdina er áætluð hagræðing í heilbrigðiskerfinu sem næst meðal annars með því að sameina á einn stað alla þá starfsemi sem í dag er dreifð á sautján staði á höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla annars ekki að fjalla frekar um þær forsendur sem liggja að baki stækkun Landspítalans enda er það ekki á verksviði skipulagsyfirvalda borgarinnar að taka afstöðu til þeirra.

Hins vegar vil ég fjalla aðeins um staðsetninguna. Í nýlegri skoðanakönnun kannaði MMR afstöðu Íslendinga til staðsetningar nýs sjúkrahúss við Hringbraut. Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 51,9 prósent að þau væru andvíg staðsetningunni og 48,1 prósent sögðu að þau væru henni hlynnt.

Var sjálfur efins

Það kom mér ekki á óvart að málið væri umdeilt. Ég var sjálfur mjög efins um þessa staðsetningu þegar ég kom fyrst að skipulagsmálum Reykjavíkur fyrir rúmu ári. Eftir að hafa kynnt mér málið og skoðað það frá mörgum hliðum hef ég hins vegar smám saman orðið að viðurkenna að ég hafði rangt fyrir mér. Ég verð stöðugt sannfærðari um að staðsetning við Hringbraut sé sú eina rétta. Skal ég nú gera grein fyrir þeirri afstöðu minni.

  1. Söguleg staðsetning Landspítalans er við Hringbraut, þarna hefur hann verið síðan fyrsta byggingin var tekin í notkun árið 1930. Það varðveitir mikilvægt samhengi í sögu og formi borgarinnar að Landspítalinn verði áfram á sínum stað.
  2. Fyrirsjáanleg stækkun spítalans við Hringbraut á sér langa skipulagssögu, deiliskipulag fyrir nýjum spítala hefur verið í gildi þarna síðan 1976 og Aðalskipulag Reykjavíkur síðan 1984. Ríkið hefur verið með samning við Reykjavíkurborg um lóð fyrir nýjan spítala við Hringbraut í marga áratugi.
  3. Á síðustu öld voru byggðar margar fleiri spítalabyggingar á svæðinu sem hægt verður að nýta áfram, svo sem Barnaspítali Hringsins, Kvennadeild, Geðdeild og Eirberg.
  4. Landspítalinn er mikilvægur hlekkur í þeim þekkingarklasa sem hefur myndast við Vatnsmýrina. Nálægð við Háskóla Íslands, Háskóla Reykjavíkur, Hús Íslenskrar erfðagreiningar og fyrirhugaða Vísindagarða styrkir þekkingarmiðju borgarinnar á þessu svæði.
  5. Svæðið liggur upp við Miklubraut sem er aðalsamgönguæð borgarinnar en liggur einnig vel við öðrum mikilvægum umferðaræðum eins og Hringbraut, Bústaðavegi og Snorrabraut.
  6. Kannanir sýna að helmingur núverandi starfsmanna Landspítalans býr í innan við 14 mínútna hjólafjarlægð í vinnuna og fjórðungur starfsmanna býr í innan við 14 mínútna göngufjarlægð. Þarna er langtímastaðsetningin farin að móta rétt búsetumynstur þar sem fólk býr nálægt vinnustað en keyrir ekki borgarenda á milli. Þetta eru mikilvæg verðmæti í borgarsamfélaginu sem ber að varðveita. Þar fyrir utan starfa á annað hundrað starfsmenn spítalans einnig við kennslu og rannsóknir í Háskóla Íslands.
  7. Staðsetningin við Hringbraut fellur vel að öðrum markmiðum um blandaða byggð. Vatnsmýrin mun byggjast upp smám saman á næstu áratugum og þar munu opnast alls konar húsnæðismöguleikar fyrir enn fleiri starfsmenn spítalans sem kjósa að búa nálægt vinnustað.
  8. Stærð og hæð nýju bygginganna í skipulaginu er að vísu mikil í samhengi við fíngert byggðamynstur Þingholtanna. Það mun þó hjálpa að núverandi spítalabyggingar eru upp við gömlu byggðina en nýju byggingarnar munu rísa neðan við gömlu Hringbraut. Í framtíðinni mun nýja spítalasvæðið síðan tengjast fyrirhugaðri uppbyggingu Vatnsmýrarinnar hinum megin við nýju Hringbraut, en þar er gert ráð fyrir þriggja til sex hæða byggð.
  9. Fyrirhugaðar nýbyggingar eru fjórar til sex hæðir en þær eru ekki miklu stærri en gömlu borgarhúsin í Kvosinni. Má nefna að við Austurvöll eru flest húsin fjórar til fimm hæðir auk þakhæðar. Það er þó alveg ljóst að þetta mikla byggingarmagn væri ekki til umræðu á þessu svæði fyrir aðra starfsemi en Landspítalann.
  10. Sameinaður Landspítali verður um 4.500 manna vinnustaður, hann mun auka fjölbreytileika mannlífsins í miðborg Reykjavíkur og styrkja hana sem íbúa- og þjónustusvæði.

Hringbraut er hagkvæmasti kosturinn

Skipulagið mun sannarlega leiða af sér aukna umferð um svæðið og er nauðsynlegt að bregðast við því. Ýmsar leiðir eru þekktar til að minnka hlutfall þeirra sem koma akandi í vinnuna. Má þar nefna góðar tengingar við hjóla- og göngustíga, viðbætur við stofnbrautir með sérakreinum fyrir strætisvagna og annan forgangsakstur og gjaldskyldu á bílastæðum. Það er einnig mjög mikilvægt að auka veg almenningssamgangna ef ná á raunverulegum árangri í að minnka álag einkabílanotkunar á samgöngumannvirki borgarinnar.

Því eru það gleðilegar fréttir að nýlega hefur verið gerður samningur um stóraukna aðkomu ríkisins að almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Upphæðin sem ríkið mun leggja til verður einn milljarður á ári í tíu ár. Þetta er einstakt tækifæri til að byggja upp gott strætókerfi og breyta hugsun borgarbúa í samgöngumálum.

Þegar talað er um staðarval er mikilvægt að bornir séu saman aðrir raunverulegir valkostir til að geta metið kosti og galla. Þeir staðir sem helst hafa verið nefndir sem aðrir valkostir eru Fossvogur, Vífilsstaðir, Keldur og Ártúnsholt. Í fyrstu virðist álitlegt að byggja við gamla Borgarspítalann í Fossvogi enda réttilega hægt að benda á að miðja íbúabyggðar höfuðborgarsvæðisins er þar nálægt. Þegar betur er að gáð er ekki lengur landrými þar fyrir svona mikla framtíðaruppbyggingu auk þess sem tengingar við stofnbrautakerfið væru mjög flóknar. Ef Landspítalinn færi hins vegar mjög austarlega í borgina yrði það til þess að svo til allir starfsmenn þyrftu að koma til vinnu á einkabíl með enn stærri bílastæðaþörf og auknum akstri um höfuðborgina. Samanburður á ólíkum valkostum bendir ávallt á Hringbraut sem hagkvæmasta kostinn.