
Gerð nýrrar akstursleiðar inn á lóð Landspítala ásamt undirgöngum undir Gömlu Hringbraut
Vinna heldur áfram við lokafrágang vegna opnunar á nýrri akstursleið inn á lóð Landspítala og styttist í að þessu verki verði lokið.
Um er að ræða nýja akstursleið á gatnamótum þar sem Gamla Hringbrautin var upp við Snorrabraut. Akstursleiðin verður sex akreinar þar sem hún er breiðust; tvær akreinar inn á svæðið, tvær akreinar út af svæðinu og svo tvær akreinar fyrir borgarlínu.
Samhliða þessum framkvæmdum er verið er að byggja undirgöng fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur undir akstursleiðina.
Steypuvinnu við undirgöngin er lokið og búið að malbika veginn yfir. Þó er eftir að klára frágang við aksturseyjar og akreinamerkingar.
Vinna við stoðveggi á svæðinu í kring er langt á veg komin. Lagnavinnu er að mestu lokið og unnið er að uppbyggingu göngustíga.
Snjóbræðsla verður í undirgöngunum og á göngustígum í kring.
Vakin er athygli á því að gönguleið er frá Læknagarði og upp á Bústaðaveg og þar meðfram til að komast að geðdeild.
Þessar framkvæmdir munu standa yfir fram í nóvember.