folk i öryggisbunaði

Heilbrigðisráðherra skoðar framkvæmdir við nýjan Landspítala

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, skoðaði í dag framkvæmdasvæði nýs Landspítala við Hringbraut.

Jarðvegsframkvæmdir vegna byggingar nýs meðferðarkjarna ganga vel svo og víðtæk gatnagerð á svæðinu. Ný gatnamót við Snorrabraut opna fljótlega. Framkvæmdasvæði meðferðarkjarnans er nú komið í fulla stærð og stefnt er að verklokum þessarar jarðvinnu strax á næsta ári. Meðferðarkjarninn er stærsta byggingin í uppbyggingu Hringbrautarverkefnisins. Aðrar byggingar eru, rannsóknahús, bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús og nýtt sjúkrahótel sem þegar hefur hafið starfsemi. Þá er hafin þarfagreining á nýju dag -og göngudeildarhúsi fyrir starfsemi Landspítala.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra: „Það er stórkostlegt að sjá langþráðan draum okkar landsmanna um uppbyggingu Landspítala vera að rætast. Framkvæmdir hér tala sínu máli og færa okkur sífellt nær markmiði okkar sem er að taka nýjan meðferðarkjarna í notkun árið 2025. Þetta er risavaxið verkefni í margvíslegum skilningi sem mun þegar allt er tilbúið valda straumhvörfum í þjónustu við sjúklinga og stórefla alla starfsemi þjóðarsjúkrahússins okkar.“

Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH ohf: „Þetta var ánægjuleg heimsókn hér á framkvæmdasvæðið og mikilvægt að heilbrigðisráðherra hafi haft þetta góða tækifæri til að koma, heimsókn sem hluti af stöðugu upplýsingaflæði um stöðu Hringbrautarverkefnisins til ráðherra. Aðalverktakinn hér er ÍAV hf. og hönnunarhóparnir Corpus og Spital hafa séð um ráðgjöf í þessum verkþáttum. Stefnt er að því að uppsteypa nýs meðferðarkjarna hefjist næsta vor en áætlanir Nýs Landspítala ohf. taka alltaf mið af þeim heimildum og stefnu sem fyrir liggur í samræmi við afgreiðslu Alþingis á fjármálaáætlun og fjárlögum hverju sinni“.