
Hvetja stjórnvöld til að byggja nýjan spítala
Læknafélag Reykjavíkur hvetur stjórnvöld til að hvika ekki frá áformum um byggingu nýs húsnæðis fyrir Landspítala, að því er fram kemur í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi félagsins í vikunni.
Fundurinn lýsir yfir áhyggjum af húsnæðismálum Landspítalans og bendir á að nýtt húsnæði hafi verið forsenda fyrir sameiningu sjúkrahúsanna árið 2000.
Í tilkynningunni segir ennfremur: „Síðan þá hafa öll aðstöðumál verið í biðstöðu vegna væntanlegrar nýrrar byggingar. Ef stjórnvöld telja að ástandið í þjóðfélaginu komi í veg fyrir áætlaða nýbyggingu er nauðsynlegt að gera gagngerar breytingar á núverandi húsnæði. Þá þarf að flytja alla bráðastarfsemi í eitt hús þar sem bráðamóttaka er.
Læknafélag Reykjavíkur vekur athygli á að slíkar bráðabirgðabreytingar eru líklegar til að verða ófullnægjandi og gríðarlega kostnaðarsamar. Því hvetur félagið stjórnvöld til að hvika ekki frá áformum um byggingu nýs húsnæðis fyrir Landspítala.“