
Munu endurskoða áformin
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að ríkisstjórnin muni endurskoða áform um byggingu nýs Landspítala á næstunni, að því er fram kom í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Áformin séu stór og fullkomlega eðlilegt sé að ný ríkisstjórn vilji fara yfir málið.
Forval sem auglýst var fyrir kosningar standi samt sem áður yfir í sumar eins og gert hafi verið ráð fyrir áður en ríkisstjórnarskipti urðu.
„Þetta eru mikil og stór áform og við þekkjum öll stöðu ríkissjóðs til að takast á við stór verkefni [...] það er fullkomlega eðlilegt að ný ríkisstjorn horfi þannig til hluta að hún vilji setja það verk í samhengi við annað sem henni er ætlað að gera.“
Hann segir að ríkisstjórnin ætli að koma málum Landspítalans úr þeirri stöðu sem þau hafa verið í en það þurfi að gefa henni tíma til að ræða hvernig það verði gert.
„Verkið heldur áfram í dag á þeim forsendum sem það gerði fyrir ríkisstjórnarskiptin, nema það liggur fyrir að núverandi stjórnarflokkar ætla sér að fara yfir þessi áform.“