
Niðurstaða í samkeppni um listaverk við Grensásdeild Landspítala
Um samkeppnina:
13.mars var niðurstaða kunngjörð í samkeppni um listaverk í nýbyggingu Grensásdeildar, endurhæfingardeildar Landspítala sem NLSH stóð fyrir.
Samkvæmt myndlistarlögum nr. 64/2012, kemur fram að 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberra nýbygginga skuli varið til listaverka í henni og umhverfi hennar. Samkeppni þessi var undirbúin og unnin í samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna SÍM). Samkeppnin var lokuð að undangengnu lokuðu forvali. Verkefnið fólst í því að gera tillögu að listaverki/ -verkum í nýbyggingu Grensásdeildar eða á lóð hennar. Lögð var áhersla á að listaverkið væri hluti af heildarhönnun byggingarinnar eða lóðarinnar.
Forvalsnefnd valdi fjóra listamenn til að taka þátt í lokaðri samkeppni. Þeir listamenn sem valdir voru til þátttöku voru:
· Anna Hallin
· Arnar Ásgeirsson
· Carl Boutard
· Sirra Sigrún Sigurðardóttir
Listamönnunum var falið að skila einni eða tveimur tillögum og alls bárust dómnefnd sex gildar tillögur. Með listaverkum er átt við hvers konar fasta og lausa listmuni, svo sem veggverk unnin beint á veggi, lágmyndir, höggmyndir og aðra listræna fegrun. Sérstaklega var óskað eftir tillögum að listaverkum sem gætu orðið eiginlegur byggingarhluti, að hluta eða í heild, og órjúfanlegur hluti af byggingunni, garðinum eða öðru umhverfi.
Niðurstaða dómnefndar
Dómnefnd hefur valið tvær vinningstillögur og eina tillögu að auki, sem fær sérstaka viðurkenningu.
Vinningstillögurnar eru eftir Arnar Ásgeirsson og eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur.
Sérstaka viðurkenningu hlýtur tillaga eftir Önnu Hallin.
Greinargerð dómnefndar:
Allar tillögurnar, sem dómnefndin fékk í hendur, eru áhugaverðar, fallegar og vel unnar og með starfsemi Grensásdeildar, starfsfólk, skjólstæðinga og aðstandendur þeirra í huga. Falleg listaverk sem myndu sóma sér vel í nýrri byggingu Grensásdeildar og endurhæfingargarðinum. Tillögurnar sem dómnefnd hefur valið til verðlauna, skara fram úr meðal annars sem möguleg kennileiti Grensásdeildar, og hvernig þeim er ætlað að vinna með rými og skala á máta sem gefur flestum möguleika að njóta þeirra. Ákjósanlegt væri að fleiri verk yrðu einnig keypt, þar sem endurhæfingardeildin og garðurinn umhverfis hana eru stór rými sem eru nýtt af skjólstæðingum sem þurfa oft að dvelja þar mánuðum saman. Fallegt og skapandi umhverfi er þeim einkar mikilvægt.
Nánar um vinningstillögur:
Vinningstillaga - Tillaga 2314, höfundur Arnar Ásgeirsson
Í umsögn dómnefndar um tillögu 2314 segir: Tillagan sem er bæði frumleg, skemmtileg og inniheldur verk sem prýða munu nýjan endurhæfingargarð Grensásdeildar Landspítala. Verkin hafa allt til þess að bera að verða kennileiti deildarinnar. Þau mynda form sem kallast geta á við framfarir og bataferli. Þrátt fyrir ófyrirsjáanleika í lögun þeirra, vísar leiðin alltaf fram og upp á við. Verkin geta því orðið skjólstæðingum og gestum hvati til að njóta garðsins og gefa einnig styrk og von um bjartari tíma. Verkin vinna vel með skala. Þau eru mörg og sjást bæði frá garðinum og innan úr byggingunni. Margir munu því geta notið þeirra á sama tíma. Þau falla vel að hönnun garðsins og eru vel staðsett innan hans.
Vinningstillaga - Tillaga 2315, höfundur Sirra Sigrún Sigurðardóttir
Í umsögn dómnefndar um tillögu 2315 segir: Tillagan að verkinu Sólbaugur er frumleg og staðsetning þess vel hugsuð á vegg matsalar deildarinnar. Verkið er stórt handofið ullarveggteppi sem jafnframt mun stuðla að góðri hljóðvist í rýminu. Verkið skrásetur dagsbirtuna frá skammdegi til hásumars og fangar þannig sólarganginn árið um kring. Litir verksins eru kóði fyrir dögun, dagsbirtu, sólarlag og myrkur. Myndefnis verksins má bæði njóta sem óhlutbundins litaflæðis og/eða skrásetningar til glöggvunar á árstíðum og takti náttúrunnar og þar með gangi lífs okkar almennt.
Viðurkenning - Tillaga 2316, höfundur Anna Hallin
Í umsögn dómnefndar um tillögu 2316 segir: Verkum tillögunnar, sem kallast Samtal, er á frumlegan hátt ætlað að vekja samtal hugar og umhverfis. Það er einkar vel lagað að göngum og almenningsrýmum hússins. Verkin dreifast um bygginguna þannig að margir geta notið þeirra. Þau samanstanda af sporöskjulaga, íhvolfum leirmálverkum og strangflataryfirborði flísalagðra reita, sem kallast á við flísar núverandi húsnæðis og fyrirhugaðar flísar í nýbyggingunni. Mjúk og flæðandi frásögn málverkanna mætir rákóttu strangflatarkerfi flísanna líkt og sköpunarfrelsið mætir regluverki í lífi okkar. Tillagan Samtal væri kærkomin viðbót og mundi gæða innri rými Grensásdeildar miklu lífi.
Hægt er að skoða allar tillögur hér á heimasíðu NLSH.
Valnefndir
Valnefnd í lokaða forvalinu:
Halldór B. Runólfsson, listfræðingur, formaður valnefndar, Aldís Arnardóttir, listfræðingur og Ósk Vilhjálmsdóttir, myndlistarmaður.
Dómnefnd:
Dagný Brynjólfsdóttir, fulltrúi stjórnar NLSH og formaður dómnefndar, Gunnar Björn Gunnarsson, fulltrúi Grensásdeildar Landspítala, Guðrún Pétursdóttir, fulltrúi Hollvina Grensásdeildar, Berglind Jóna Hlynsdóttir, SÍM og Birgir Snæbjörn Birgisson, SÍM. Ritari dómnefndar: Sigríður Sigurðardóttir, NLSH. Trúnaðarmaður samkeppninnar: Ingibjörg Gunnlaugsdóttir tilnefnd af SÍM.
ALLAR NÁNARI UPPLÝSINGAR Á ÞESSARI VEFSLÓÐ: