mynd af skylti með upplysingum um hvernig maður kemst a staði

Nýr spítali aðkallandi

Hjúkrunarráð Landspítala skorar á Alþingi Íslendinga og Reykjavíkurborg að veita nýjum Landspítala við Hringbraut brautargengi, þrátt fyrir neikvæða umræðu undanfarið, að því er fram kemur í ályktun ráðsins.

„Ákvörðun um staðsetningu Landspítala var tekin fyrir 10 árum. Helstu rökin voru m.a. nálægð við Háskóla Íslands, að þannig tengdist spítalinn best stórum umferðaræðum og að þar sé mesta byggingarmagn fyrir. Ákvörðunin var tekin í samvinnu við borgaryfirvöld sem töldu að framtíðaruppbygging á þessum stað yrði lyftistöng fyrir miðborgina,“ segir í ályktuninni.

„Margir hafa áhyggjur af aukinni umferð sem óneitanlega fylgir stórum vinnustöðum sem þessum. Spyrja má hvað byggt yrði í staðinn við Hringbrautina, ef ekki verður af byggingu Landspítala. Myndi dýrmætt byggingarsvæði svo nálægt miðborginni ekki verða nýtt undir aðrar byggingar sem einnig kalla á aukna umferð um svæðið?“

Ljóst sé að ef byggja eigi Landspítala upp frá grunni á öðrum stað, yrði sú framkvæmd mjög kostnaðarsöm og myndi tefja uppbyggingu um mörg ár eða áratugi.

Mun gjörbreyta aðstæðum fyrir sjúklinga og aðstandendur
„Núverandi húsnæði á Landspítala er úr sér gengið. Nýr spítali er aðkallandi og mun gjörbreyta aðstæðum fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. Sjúklingar sem leggjast á Landspítala eru mun veikari en áður og þurfa flóknari og sérhæfðari þjónustu. Alvarlegar spítalasýkingar hjá sjúklingum og faraldrar eru einnig vaxandi vandamál í heilbrigðiskerfinu. Nýr spítali mun gjörbylta allri aðstöðu til að sinna þessum sjúklingum. Einnig þarf að byggja húsnæði yfir tæki og tól sem tilheyra nútíma heilbrigðisþjónustu.“

Einnig er í ályktuninni bent á að nálægð Landspítala við Háskóla Íslands sé mikilvæg og auki möguleika á samvinnu, hagræðingu, nýsköpun og hagnýtingu rannsókna. Fjölmörg sprotafyrirtæki í heilbrigðisvísindum sýni hvers megnug slík samvinna sé og ljóst að tækifærin séu fjölmörg.