
Ráðstefna um tækninýjungar í myndgreiningu
Í desember síðastliðnum var haldin árleg ráðstefna á vegum RSNA samtakanna (Radiology Society of North America) í Chicago. Um er að ræða stærstu ráðstefnu heims á sviði læknisfræðilegrar myndgreiningar, þar sem saman koma sérfræðingar, vísindamenn og framleiðendur til að ræða nýjustu framfarir og deila þekkingu. Björg Guðjónsdóttir, verkefnastjóri á tækni- og þróunarsviði NLSH tók þátt í ráðstefnunni sem liður í undirbúningi fyrir innkaup á myndgreiningarbúnaði fyrir meðferðarkjarna.
RSNA ráðstefnan býður upp á yfirgripsmikla fræðslu í formi fyrirlestra, vinnustofa og kynninga á vísindarannsóknum. Á ráðstefnunni er einnig umfangsmikil tækjasýning þar sem fulltrúum NLSH og LSH gafst kostur á að funda með öllum helstu framleiðendum myndgreiningarbúnaðar, skoða nýjustu tæki markaði og fá innsýn í þær tækninýjungar sem er að vænta á næstu árum og koma til með að nýtast í framtíðarþjónustu Landspítala.