Reynsla sótt til Noregs fyrir upplýsingatækniverkefni NLSH

Í undirbúningi flókinna upplýsingatækniverkefna fyrir nýjar byggingar NLSH við Hringbraut skiptir miklu máli að nýta sér reynslu og þekkingu annarra landa.

„Sérstaklega er horft til sambærilegra verkefna í Noregi og hefur NLSH átt í góðu samstarfi við fyrirtækið Sykehusbygg, sem vinnur að umfangsmiklum og metnaðarfullum verkefnum,“ segir Hannes Þór Bjarnason verkefnastjóri hjá NLSH.

Á undanförnum árum hefur Sykehusbygg staðið að byggingu nýrra sjúkrahúsa með góðum árangri, en nú er unnið þar að stórum verkefnum, þar á meðal:

Nye Aker sjúkrahús (190.000 m²)

Nye Rikshospitalet (150.000 m²)

Radiumhospitalet (rannsóknar- og sjúkrahús fyrir krabbameinsmeðferðir, 43.000 m²)

Livsvitenskapsbygget (rannsóknahús, 66.000 m²)

Drammen sjúkrahús (122.000 m²)

Stavanger sjúkrahús (125.000 m²)

Með Sykehusbygg vinnur tæknifyrirtækið Sykehuspartner að þróun og framkvæmd upplýsingatæknilausna fyrir þessi viðamiklu verkefni.

Í ferðinni voru þrjú sjúkrahús heimsótt og fundir haldnir með lykilaðilum í upplýsingatæknimálum, þar á meðal frá Sykehusbygg, Sykehuspartner, Sykehusapotekerne og fleiri.

„Því var það ómetanlegt tækifæri fyrir starfsmenn NLSH að heimsækja þessa samstarfsaðila í Noregi og læra af þeirra reynslu,“ segir Hannes.

Ferðin var skipulögð af NLSH, Morthen Thorkildsen og Cathrine Lund hjá ráðgjafafyrirtækinu Vali AS. Með í för voru þrír starfsmenn Landspítala sem hafa beinar tengingar við upplýsingatækniverkefni NLSH.