folk ad labba i att ad spitalanum

Sameining sjúkrahúsanna var forsenda framfara

Efasemdir um réttmæti sameiningar spítalanna í Reykjavík hafa heyrst að undanförnu. Í þeirri umræðu hafa efnislegar röksemdir gegn ákvörðuninni lítt eða ekki verið dregnar fram að undanskilinni þeirri staðreynd að nú sé um takmarkaða samkeppni að ræða í spítalaþjónustu. Því er ástæða til þess að draga fram ástæður sameiningarinnar og vísa til reynslu af henni.

Hagræðingarkrafa og fagleg sérhæfing
Rekstrarleg hagræðing var af hálfu stjórnmálamanna höfuðröksemd fyrir sameiningu spítalanna. Í nýútkominni stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar kemur fram að tekist hafi allvel að halda kostnaði í skefjum á tímabilinu 1999 - 2004 og horfur eru á að rekstrarniðurstaða ársins 2005 styðji þá niðurstöðu. Í skýrslunni segir enn fremur að líklegt sé að þróunin hefði orðið önnur ef sjúkrahúsin hefðu starfað áfram sitt í hvoru lagi. Þessi árangur hefur náðst þótt starfsemin sé enn tvístruð og fari fram á nærri tuttugu stöðum á höfuðborgarsvæðinu, með umtalsverðum kostnaðarauka. Fagleg sérhæfing er grundvöllur þeirra gífurlegu framfara sem orðið hafa á undanförnum áratugum í lækningum og annarri heilbrigðisþjónustu. Í mörgum minni sérgreinum er útilokað að halda uppi þróaðri sérhæfingu án þess að sameina kraftana.

Menntunar- og rannsóknarhlutverk
Öflugt háskólasjúkrahús undir einu þaki, nægjanlega stórt til að standa undir nafni, var sú sýn sem sætti sjónarmið starfsmanna til sameiningar. Þeir sem þekkja til forsendna fyrir tilvist háskólasjúkrahúss eru sammála um að sameining aðstöðu og þekkingar í okkar smáa samfélagi var óhjákvæmileg. Krafa samfélagsins til heilbrigðisþjónustunnar í landinu er að hún sé fyrsta flokks. Svo verður aldrei til lengdar nema hún standi á grunni trausts vísindastarfs. Hið sama gildir um menntun heilbrigðisstarfsmanna. Árið 2004 voru um 1.100 nemendur í námi eða starfsþjálfun á LSH. Einn mikilvægasti ávinningur sameiningarinnar felst í sameiningu sérgreina og sérþekkingar á einn stað. Þannig skapast aukið svigrúm til að bæta kennslu og rannsóknir og möguleika á kennslu í fleiri sérgreinum og enn fremur til framhaldsnáms. Það hefur líka komið á daginn að ásókn í framhaldsnám á LSH hefur aukist til muna.

Félagslegt umhverfi
Vinnuvernd var höfð í huga við ákvörðun um sameiningu sjúkrahúsanna. Kröfur sem felast í vinnuverndartilskipun EES hafa reynst erfiðari til úrlausnar en nokkurn óraði fyrir. Með öllu væri útilokað að koma til móts við þessi ákvæði og tryggja samfellda vaktþjónustu ef spítalarnir væru ekki sameinaðir. Enn skortir meira að segja nokkuð á það að reglum sé fullnægt. Viðhorf yngra fólks til heimilislífs og frístunda hefur breyst hér á landi sem annars staðar. Þeim viðhorfum verður að mæta, annars leitar unga fólkið inn á annan starfsvettvang sem aftur leiðir til skorts á hæfum starfsmönnum.

Dýr tækjakostur og annar búnaður
Góð nýting tækjabúnaðar skiptir miklu fyrir hagkvæmni rekstrar. Árleg fjárfesting í tækjabúnaði og endurnýjun hans þarf að vera um 3% af rekstrarfé nútíma sjúkrahúsa eða u.þ.b. 800 milljónir króna árlega fyrir LSH. Líftími flóknustu tækjanna er aðeins 5 - 7 ár, m. a. vegna þess að þau úreldast vegna örra tækniframfara. Tvöföldun tækjabúnaðar hægir á mögulegri endurnýjun. Með ónauðsynlegri tvöföldun tækja er erfiðara að fylgja tækniframförum eftir og án sameiningar hefði spítalanum verið ókleyft að fylgja eðlilegri tækniþróun. Mikilvægt er líka að hafa í huga að flest þessara flóknu tækja krefjast sérþjálfaðs starfsfólks og launakostnaður vegna slíkra áhafna er gríðarmikill, hvað þá ef halda þarf uppi tvöfaldri vaktþjónustu.

Heildstætt skipulag
Ný þekking á mikilvægi hönnunar til að auka gæði þjónustu og bæta öryggi sjúklinga hefur leitt til mikilla breytinga á spítalahúsnæði víða um heim, svo og breytt viðhorf sjúklinga og aðstandenda þeirra. Sjúkrahúsbyggingar í Reykjavík eru flestar komnar til ára sinna og nánast umkringdar viðbyggingum þannig að allt flæði sjúklinga, starfsfólks og vöruflutninga er líkast því sem væri í völundarhúsi. Flutningur sjúklinga milli fjarlægra staða er til tafa og óþæginda fyrir veikt fólk og stundum hættulegur. Aðstaða starfsmanna er víða ófullnægjandi og stendur starfinu fyrir þrifum. Nýjar sjúkrahúsbyggingar eru því mikilvægasta forsendan fyrir eðlilegri þróun og hagkvæmum rekstri heilbrigðisþjónustunnar.

Fullur ávinningur með einum stað
Framkvæmd sameiningar sjúkrahúsa er aldrei hafin yfir gagnrýni en flest bendir til þess að markmiðum hennar hér hafi að mörgu leyti verið náð þótt húsnæði standist ekki kröfur sem gerðar eru í nútíma heilbrigðisþjónustu. Fullur ávinningur sameiningarinnar næst ekki fyrr en allri starfseminni hefur verið komið fyrir á einum stað í nýju sjúkrahúsi.

Birtist einnig Morgunblaðið 19. janúar 2005