
Sjúklingar liggja á göngum spítalans
Allt að tólf manns þurfa að liggja á göngum Landspítalans um helgar vegna þess að ekki eru laus rúm á deildum, að því er fram kom í fréttum RÚV á dögunum. Fimm legudeildum hefur verið í heild eða að hluta breytt í dagdeildir síðustu þrjú ár og þannig hefur sjúkrarúmum fækkað til muna.
Landspítalinn hefur mætt aukinni kröfu um sparnað síðustu árin með ýmsum úrræðum. Eitt þeirra er að fækka innlögnum á spítalann. Þess vegna hefur þvagfæraskurðdeild, skurðdeild í Fossvogi og Grensásdeild verið breytt í dagdeildir. Sem og hluta hjartadeildar og gigtar- og almennrar lyflækningadeildar. Við breytinguna hefur verið fækkað um meira en sjötíu legurými, segir í fréttinni.
Þróun til lengri tíma
Þessi þróun nær til lengri tíma. Þannig voru í heild nærri 840 sjúkrarúm á Landspítalanum árið 2007. Þeim hefur verið fækkað jafnt og þétt og um síðustu áramót voru þau 659 eða ríflega 20 prósentum færri en fyrir hrun. Lengi vel kom fækkunin ekki komið að sök.
„Og við höfðum ekki marga sjúklinga á göngunum. En síðasta svona eitt oghálft ár höfum við í vaxandi mæli haft á sjúkrahúsinu sjúklinga sem eru að bíða eftir að komast á hjúkrunarheimili," segir Vilhelmína Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækninga á Landspítala, í samtali við RÚV.
Verst um helgar
Þá kemur fram að nú séu 40 til 50 manns í þessari stöðu sem liggja inni á spítalanum.
„Verst er eiginlega kannski ástandið um helgar oft hjá okkur en ég held að það komi fyrir að við séum með tíu eða tólf sjúklinga á ganginum á spítalanum öllum og þær deildir sem hafa flesta á gangi eru með tvo til þrjá og þetta er auðvitað ekki gott vegna þess að það er þröngt fyrir starfsfólk og sjúklinga og hreinlega bara er ekki fólki bjóðandi," segir hún í fréttinni.