
Sjúkrahótel eða ríkishótel?

Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 31. janúar sl. er viðtal við Ásdísi Höllu Bragadóttur eiganda Sinnum, fyrirtækis sem sinnir m.a. öldruðum, fötluðum og langveikum, þar sem hún upplýsir að reksturinn gangi upp fyrir það að gífurlegum aga sé beitt í rekstrinum og að fyrirtækið skuldi ekki krónu. Meðal annars rekur Sinnum sjúkrahótel samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands og í samvinnu við Landspítala sem sér um hjúkrunarþjónustu.
Í hlutarins eðli liggur að þeir sem hafa þekkingu og reynslu af hótelrekstri eru betur til þess fallnir að reka hótel en þeir sem hafa reynslu og þekkingu af sjúkrahúsrekstri. Flest almenn hótel eru í samkeppnisrekstri, en svo er ekki með sjúkrahótelið í Ármúla enda lúta sjúkrahótel á margan hátt öðrum lögmálum en venjuleg hótel. Mikilvægt er að fólk, einkum rekstraraðilar, geri sér grein fyrir hver er sá munur er.
Hlutverk sjúkrahótela
Sjúkrahótel hafa víða um lönd orðið æ mikilvægari þáttur í þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra. Rekstur sjúkrahúsa verður sífellt dýrari einkum vegna framfara í heilbrigðisþjónustunni. Með meiri þekkingu, aukinni tækni og nýjum lyfjum er hægt að veita meiri þjónustu en áður var mögulegt. Sjúkrahús leitast því við að sinna öllum þeim sjúklingum sem mögulegt er án innlagnar. Sjúkrahótel í nálægð sjúkrahúss er mikilvægur stuðningur við þessa þróun. Það hefur sýnt sig að notagildi slíkra hótela eykst verulega við það að vera í mikilli nálægð við sjúkrahúsið og að innangengt sé milli sjúkrahúss og sjúkrahótelsins. Þannig njóta gestir stuðnings og öryggis af nálægðinni.
Fjölmennustu hópar notenda sjúkrahótela eru konur og börn sem koma þangað nokkrum klukkustundum eftir fæðingu, foreldrar barna sem þurfa að vistast á vökudeild um lengri eða skemmri tíma eftir fæðingu og þurfa að koma reglulega til mjólkurgjafar eða einfaldlega að vera í nálægð hins nýja lífs sem hangir á bláþræði. Þá er að nefna foreldra langveikra barna sem mörg dvelja langdvölum á sjúkrahúsi, krabbameinssjúklingar sem eru í þéttri eða jafnvel daglegri geisla- eða lyfjameðferð. Sjúklingar sem eru í blóðskilun er einnig stór hluti notenda og að síðustu má nefna sjúklinga eftir skurðaðgerðir og þá sem eru í rannsóknum og að öðrum kosti þyrfti að leggja inn í dýr legupláss spítalans. Sjúklingar sem eiga um langan veg að fara og geta komist hjá innlögn á spítalann svo og aðstandendur þeirra hafa einnig mikil not af sjúkrahóteli. Af þessari upptalningu, sem ekki er tæmandi, ætti að vera augljóst hve nálægð við spítalann er mikilvæg og samspil sjúkrahúss og hótels ekki síður.
Rekstrarform sjúkrahótels og húsnæðiskröfur
Það var mikið framfaraspor þegar Rauði kross Íslands hóf rekstur sjúkrahótels við Rauðarárstíg. Var samvinna spítalans og RKÍ til fyrirmyndar en gallinn var fjarlægðin milli spítala og hótels þó hún væri ekki ýkja mikil. Því var ákveðið að reist skyldi sérhannað hús á lóð spítalans fyrir þessa starfsemi. Var haft samráð við reyndan hótelrekanda um þá hönnun. Kröfur til húsnæðis slíkra hótela eru hvergi nærri jafn ríkar og gerðar eru til sjúkrahúsa, en þó þarf að uppfylla öll almenn skilyrði um hótelrekstur, lög og reglur. Uppfylla þarf kröfur heilbrigðiseftirlits og annarra yfirvalda um rekstrarleyfi, hreinlætisaðstöðu, þrif og þar fram eftir götunum. Margir gestir hafa skerta hreyfigetu og þarf að mæta þörfum þeirra. Aðstaða þarf að vera fyrir hjúkrunarfræðinga til að þjónusta þá sem eru á sjúkrahótelinu svo sem fyrir útdeilingu lyfja, sáraskiptingar og ekki síst til að veita fræðslu og stuðning.
Það er misskilningur sem ráða má af máli Ásdísar Höllu að Landspítali hafi ákveðið að reka fyrirhugað sjúkrahótel þó á lóð spítalans sé. Rekstraraðili getur sem best verið einkaaðili að því gefnu að hann uppfylli sértækar kröfur kaupanda þjónustunnar og hafi leyfi fyrir rekstri af þessu tagi.