Skortur á einbýlum ein meginástæða

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala, segir að skortur á einbýlum sé ein meginástæða fyrir kröfu um nýjan spítala, að því er fram kom í frétt Stöðvar 2 um helgina.

Þar kemur fram að aðstæður á spítalanum séu nú erfiðar vegna inflúensufaraldar sem sé í örum vexti og annarra smitsjúkdóma. Yfir þrjátíu sjúklingar hafi verið í einangrun um helgina en einbýli skorti sárlega á spítalann.


Már segir að aðstæður séu mjög erfiðar og á von á því að ástandið muni versna á næstu vikum.

Inflúensufaraldur er í hröðum vexti, samkvæmt gögnum frá sóttvarnalækni, þessir faraldrar eru þó ekki umfangsmeiri en í venjulegu árferði enn sem komið er, en það sem þykir óvenjulegt er að þessir þrír faraldrar falla saman, og margfalda þess vegna álagið á starfsmenn Landspítalans.


Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir álagið aukast með hverju árinu vegna stækkandi sjúklingahóps eldra fólk. Það geri stöðuna enn erfiðari að nú bíði um 50 manns á spítalanum eftir plássi á hjúkrunarheimili og þar fyrir utan hafi plássum á spítalanum fækkað sökum mikils niðurskurðar frá hruni.

Þá skortir einbýli á spítalann til að koma í veg fyrir að smit dreifist. Hlutdeild einbýla á spítalanum er nú aðeins um 15 prósent.

Erfiðast hvað margir smitast á skömmum tíma
„Við reynum að nýta þau úrræði sem við höfum, " segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdóma deild, en hann segir það erfiðast hvað margir smitast á skömmum tíma.

Hann ítrekar að starfsfólk geri sitt besta í stöðunni og hafi glímt við erfiðari áskorun árið 2009 þegar svínaflensan geisaði.

„Stundum hendir það að slappur einstaklingur á fjölbýli smitar áður en til réttar greiningar kemur," útskýrir Már um það hvernig margir geta smitast á skömmum tíma, en hann telur skort á einbýlum eina meginástæðu fyrir kröfu um nýjan spítala.

Enda vandamálið alvarlegt, „Þetta geta verið erfið veikindi og jafnvel dregið til dauða," segir Már í viðtali við Stöð 2.

Frétt Stöðvar 2