
Stýrihópur vegna lyfjaþjónustu stofnaður
Í meðferðarkjarnanum verður ný aðstaða fyrir lyfjaþjónustu og hafa NLSH og Landspítali stofnað stýrihóp um lyfjaþjónustuna.
„Viðamikil starfsemi fer fram hjá lyfjaþjónustu Landspítalans, s.s. almenn lyfjafræðiþjónusta og blöndun ýmissa lyfja. Í nýjum spítala er gert ráð fyrir að tiltekt lyfja verði vélvædd. Sjálfvirk lyfjatiltekt (vélmenni) hefur verið að ryðja sér til rúms á sjúkrahúsum erlendis og er hún talin auka öryggi sjúklinga til muna, fyrningar minnka og dýrmætur tími hjúkrunarfræðinga á deildum sparast. Blöndun lyfja útheimtir góða aðstöðu sem þarf að uppfylla GMP kröfur og þarf að hanna blöndunareininguna m.t.t. ýtrustu smitgátar og öryggis. Meðal annars eru krabbameinslyf, sýklalyf og verkjadreypi blönduð þar en einnig næringarlausnir,” segir Ingólfur Þórisson sviðsstjóri tækni og þrónarsviðs NLSH.
Stýrihópurinn mun hafa það verkefni að hafa heildarsýn yfir öll verkefni tengd lyfjaþjónustunni, ferla, fyrirkomulag húsnæðis, skilgreining tækjabúnaðar sem kaupa þarf og hugbúnaðarverkefni lyfjaþjónustunnar.