
Sýking undirstrikar mikilvægi úrbóta
Yfirlæknir blóðlækningadeildar á Landspítalanum við Hringbraut segir að sýking sem greindist á deildinni í gær undirstriki mikilvægi úrbóta í húsnæðismálum LSH, að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins í gær. Deildinni hefur verið lokað vegna sýkingarinnar.
Deildin verður lokuð þangað til sýni hafa verið ræktuð úr öllum sjúklingum sem þar voru fyrir, og í það minnsta fram á mánudag. Hlíf Steingrímsdóttir, yfirlæknir á blóðsjúkdómadeild, segir að ónæmi fyrir sýklalyfjum einkenni þann stofn bakteríunnar sem greindist í gær. Hún sé hins vegar hluti af umhverfinu og yfirleitt ekki mjög skaðleg. Það sé hins vegar alvarlegt þegar hún komi upp á blóðlækningadeild spítalans.
Snýst um öryggi sjúklinga
Deildin er eina sérhæfða blóðlækningadeild landsins. Þar dvelst fólk sem haldið er ýmsum illkynja blóðsjúkdómum á borð við hvítblæði og eitlakrabbamein. Sjúklingarnir eiga það flestir sameiginlegt að vera mjög viðkvæmir fyrir ýmiss konar sýkingum.
Á blóðlækningadeildinni eru fjórtán rúm; sex á einbýlum. Allt að fjórir sjúklingar eru um hvert salerni en oft kemur sú staða upp að vegna sýkingarhættu megi sjúklingar ekki deila salerni. „Þetta snýst um öryggi sjúklinga, og sérstaklega í ljósi svona sýkingarvarna," segir Hlíf í samtali við Fréttablaðið.