Undirbúningsvinna hafin vegna innkaupa á sjúkrastokkum, sjúklingalyftum og sjúkrakallkerfi

Undirbúningur er hafinn vegna fyrirhugaðra innkaupa á sjúkrastokkum, sjúklingalyftum og sjúkrakallkerfi fyrir nýjar byggingar Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Þetta er búnaður sem er ætlað að tryggja öryggi, þægindi og skilvirkni í meðferð og umönnun sjúklinga.

Um er að ræða:

· Sjúklingalyftur: sem styðja við flutning og færslu sjúklinga á öruggan og skilvirkan hátt.

· Sjúkrakallkerfi: sem tryggir örugg og skjót samskipti milli sjúklinga og starfsfólks.

· Sjúkrastokka: sem tryggja aðgengi að nauðsynlegri innviðaþjónustu eins og rafmagni, neti og lyfjagaslögnum við rúmstæði sjúklings.

Núna standa yfir markaðskannanir (RFI – Request for information) þar sem aflað er upplýsinga frá framleiðendum og birgjum um mögulegar lausnir á markaði. Niðurstöður RFI ferlisins verða síðan nýttar við gerð útboðsgagna.

„Áætlað er að búnaðurinn verði fyrst settur upp í nýbyggingu Grensásdeildar, en einnig síðar í meðferðarkjarna ásamt nýrri legudeildarbyggingu við Sjúkrahúsið á Akureyri, eftir því sem framkvæmdaverkefnum vindur fram,” segir Björg Guðjónsdóttir verkefnastjóri hjá NLSH.