
Unga fólkið, heilbrigðismál og Háskóli Íslands
„Sameinaðir kraftar í Vatnsmýrinni“
Spítalinn okkar, landssamtök um uppbyggingu Landspítala héldu málþing 15.mars á Hótel Reykjavík Natura. Samtökin hafa frá stofnun 2014 staðið fyrir kynningarfundum og málþingum um mikilvægi þess að uppbygging Landspítala við Hringbraut gangi hratt og vel fyrir sig.
Anna Stefánsdóttir, formaður „Spítalinn okkar“, sagði í tilefni málþingsins:
„Við hjá Spítalanum okkar fögnum því að uppbygging Landspítala við Hringbraut er hafin. Framkvæmdin er í anda þess sem Alþingi Íslendinga hefur ákveðið. Verkefnið er mjög mikilvægt fyrir íslenskt samfélag og heilbrigðisþjónustuna sérstaklega. Það er brýnt að ekkert verði til að tefja framkvæmdirnar og er ábyrgð þeirra sem taka ákvarðanir í því máli mikil“.
„Með málþinginu í dag þá viljum við ítreka mikilvægi þess að ekki verði hnikað frá þeirri ákvörðun að uppbygging nýs Landspítala verði við Hringbraut. Staðsetning er mjög mikilvæg fyrir það háskólaumhverfi sem þarna er, tengslin við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og þær greinar sem eru í Háskólanum í Reykjavík og tengjast spítalanum ásamt líftæknifyrirtækjum sem risin eru í Vatnsmýrinni“.
„Það var mikilvægt að heyra skoðanir unga fólksins hér í dag og greinilegur samhljómur með þvi sem þar kom fram með helstu áherslum okkar hjá samtökunum“.
Þrír fyrirlesarar voru á dagskrá málþingsins. Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Klara Guðmundsdóttir læknanemi og Sara Þórðardóttir Oskarsson listamaður.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sagði að samstarf Háskóla Íslands og Landspítala væri afar mikilvægt.
„Stofnanirnar störfuðu náið saman og samstarfið hefði leitt af sér mikinn árangur í vísindastarfi á alþjóðlegum vettvangi, ekki hvað síst með sameiginlegum birtingum í vísindatímaritum. Samstarf á sviði kennslu og starfsþjálfunar væri einnig mjög mikilvægt og að stundum væri sagt að Landspítalinn sé stærsta kennslustofa Háskóla Íslands."
Fyrirlestur Klöru Guðmundsdóttur, læknanema, bar yfirskriftina „Það á enginn eftir að heimsækja þig Sophia“.
Klara veitti innsýn í núverandi ástand á Landspítala og lagði áherslu á óhagræði þess að reka bráðaþjónustu á tveimur stöðum í borginni. Sagði hún að aðstaðan væri óboðleg og að núverandi aðstaða á Landspítala væri ógn við öryggi sjúklinga.
Fyrirlestur Söru Þórðardóttur Oskarsson listakonu „dýnamík í Vatnsmýrinni“ fjallaði um mikilvægi þess að snúa ekki af leið í fyrirhugaðri uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Sara lagði mjög mikla áherslu á nálægð spítalans við háskóla, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki til að viðhalda þróun í læknavísindum. Sara hvatti stjórnvöld að tefja ekki fyrirhugaða uppbyggingu nýs Landspítala á Hringbraut.