mynd af Kristjan þor

Viðtöl að loknu málþingi Spítalans okkar

Forstjóri Landspítala, Páll Matthíasson, fjallar í vikulegum pistli sínum um nýafstaðið málþing sem Spítalinn okkar félagasamtök héldu í vikunni. Málþingið bar yfirskriftina „nýr Landspítali loks í augsýn“ þar sem flutt voru mörg fróðleg erindi um stöðu Landspítalaverkefnisins.

Eftir málþingið var rætt við Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Pál Matthíasson og nokkra af fyrirlesurum málþingsins. Í máli heilbrigðisráðherra kom m.a. fram að full sátt sé um verkefnið á Alþingi og unnið sé eftir þeirri áætlun sem þingið hefur samþykkt. Ráðherra ræddi einnig um hversu mikill samhljómur hefði verið meðal ræðumanna og hversu nauðsynlegt það væri að Íslendingar standi saman og haldi uppi hágæða heilbrigðisþjónustu.

„Liður í þvi er að endurgera þjóðarsjúkrahúsið“, sagði Kristján Þór.

„Það er ekkert karpað um þetta lengur á þingi, þingið hefur sett lög um byggingu Landspítalans við Hringbraut, það hefur verið samþykkt þingsályktun, það hafa verið samþykkt fjárlög í tvígang, það hefur verið samþykkt ríkisfjármálaáætlun til nokkurra ára þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut“, segir Kristján að lokum.

Birgir Jakobsson, landlæknir, sagði að flæðið í erindum þeirra sem töluðu hafi öll stefnt í sömu átt. Birgir lagði mikla áherslu á það að þegar byggt væri þjóðarsjúkrahús þá væri mikilvægt að líta til heilbrigðiskerfisins í heild.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, sagði að það sem stæði upp úr væri hversu frábær yfirferð hefði verið á málþinginu og hversu mikilvægt það væri að byggja nýjan spítala. Það ætti ekki að taka svo langan tíma að byggja þegar hönnunarferli lýkur.

Pistil forstjóra Landspítala og viðtöl sem tekin voru eftir málþingið má sjá hér