
Vinna við meðferðarkjarna í fullum gangi
Vinna við meðferðarkjarna er í fullum gangi og innivinna á legudeildum á fimmtu og sjöttu hæð er hafin með slípun gólfa og undirbúningi fyrir ílögn á gólf.
Á næstu vikum verður lagt í gólf og byrjað á innveggjum, en á sama tíma er unnið að ílögn og frágangi í báðum kjöllurum, þar sem múrverk og málningarvinna eru hafin á nokkrum svæðum.
„Lokafrágangur á útveggjaklæðningu er í fullum gangi þar sem unnið er við þensluskil, þakkanta sem og uppsetningu glugga og hurða. Einnig er unnið að þéttingu útveggja á fjórðu hæð, þar sem m.a. inntök fyrir loftræsingu hússins eru staðsett. Vinna við þök er í fullum gangi, þar sem m.a. er unnið að vatnsþéttingu með ábræddum þakpappa, söndun og lagningu á hellum. Víða er einnig verið að koma fyrir ílögn á þökum til að mynda vatnshalla undir uppbyggingu þaks. Á næstu mánuðum verður farið í enn frekari framkvæmdir á fleiri hæðum hússins, þegar innanhússfrágangur á fleiri hæðum fer í gang, “segir Árni Kristjánsson, staðarverkfræðingur NLSH.