Fréttasafn

folk ad labba i att ad spitalanum

Sameining sjúkrahúsanna var forsenda framfara

Efasemdir um réttmæti sameiningar spítalanna í Reykjavík hafa heyrst að undanförnu. Í þeirri umræðu hafa efnislegar röksemdir gegn ákvörðuninni lítt eða ekki verið dregnar fram að undanskilinni þeirri staðreynd að nú sé um takmarkaða samkeppni að ræða í spítalaþjónustu. Því er ástæða til þess að draga fram ástæður sameiningarinnar og vísa til reynslu af henni.

Hagræðingarkrafa og fagleg sérhæfing
Rekstrarleg hagræðing var af hálfu stjórnmálamanna höfuðröksemd fyrir sameiningu spítalanna. Í nýútkominni
stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar kemur fram að tekist hafi allvel að halda kostnaði í skefjum á tímabilinu 1999 - 2004 og horfur eru á að rekstrarniðurstaða ársins 2005 styðji þá niðurstöðu. Í skýrslunni segir enn fremur að líklegt sé að þróunin hefði orðið önnur ef sjúkrahúsin hefðu starfað áfram sitt í hvoru lagi. Þessi árangur hefur náðst þótt starfsemin sé enn tvístruð og fari fram á nærri tuttugu stöðum á höfuðborgarsvæðinu, með umtalsverðum kostnaðarauka. Fagleg sérhæfing er grundvöllur þeirra gífurlegu framfara sem orðið hafa á undanförnum áratugum í lækningum og annarri heilbrigðisþjónustu. Í mörgum minni sérgreinum er útilokað að halda uppi þróaðri sérhæfingu án þess að sameina kraftana.